top of page

Lög SVH

20220713_114505.jpg

Lög Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar

1.gr. Nafn og heimili

1.    Nafn félagsins er Stangaveiðifélag Hafnarfjarðar.
2.    Skammstöfunin er S.V.H.
3.    Heimilisfang og varnarþing eru í Hafnarfirði.

2. gr. Tilgangur

1.    Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna, bæta aðstöðu þeirra til stangaveiði með því að taka á leigu veiðisvæði eða taka að sér útleigu á veiði í umboði veðiréttareigenda eða umboðsmanna veiðiréttar.
2.    Halda í heiðri veiðireglur stangaveiðimanna.
3.    Stuðla að ræktun fiskstofna á veiðisvæðum félagsins.
4.    Veita félagsmönnum fræðslu um lax- og silungsveiði og stuðla að aukinni leikni með kennslu.
5.    Stuðla að samheldni veiðimanna í samvinnu við önnur félög stangaveiðimanna.

3. gr. Félagsaðild

1.    Félagsmenn geta þeir orðið sem meirihluti stjórnar samþykkir.
2.    Félagsmönnum er skylt að hlíta lögum og reglum félagsins og virða almennar veiðireglur.
3.    Brjóti félagsmaður þetta ákvæði er stjórn félagsins heimilt að víkja honum úr félaginu.

4. gr. Skyldur félagsmanna

1.    Óheimilt er félagsmanni að bjóða í veiðisvæði í samkeppni við félagið. Þetta ákvæði nær þó ekki til endurnýjunar leigusamnings sem félagsmaður hafði fyrir.

5. gr. Árgjald og inntökugjald

1.    Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi. Gjalddagi þess er 15. janúar.
2.    Auk árgjalds greiðir hver nýr félagsmaður inntökugjald, sem er forsenda aðildar. 
 Upphæð þess er ákveðin á aðalfundi.
3.    Nýir félagsmenn skulu greiða árgjald á því ári er þeir ganga í félagið,

ef úthlutun veiðileyfa hefur ekki farið fram, ella greiði þeir ekki árgjald það ár.
4.    Inntöku- og árgjald þeirra félagsmanna sem  eru 67 ára á starfsárinu, öryrkja og þeirra sem eru yngri en 20 ára skal að hámarki vera 50% af fullum gjöldum.
5.    Skuldi félagsmaður árgjöld fyrir 2 ár eða meira má stjórnin tilkynna honum að hann verði felldur af félagaskrá ef hann stendur ekki skil á gjöldum sínum innan eins mánaðar.

6. Einungis þeir félagsmenn sem greitt hafa árgjald geta sótt um veiðileyfi.

6. gr. Eignir félagsins

1.    Enginn félagsmaður á tilkall til hluta af eignum félagsins þó hann hverfi úr félaginu eða því verði slitið.
2.    Enginn félagsmaður ber ábyrgð á skuldbindingum félagsins með öðru en gjöldum sínum til þess.
3.    Ekki er heimilt að veðsetja eignir félagsins, nema með samþykki 2/3 félagsmanna á tveimur aðalfundum.

7. gr. Stjórn og skoðunarmenn reikninga

1.    Í stjórn skulu vera fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi.

Auk þess eru þrír menn í varastjórn.
2.    Framboðum til stjórnar skal skila skriflega til skrifstofu félagsins eigi síðar en fjórtán dögum fyrir aðalfund og skulu nöfn frambjóðenda birt í aðalfundarboði.
3.    Formann skal kjósa til eins árs.
4.    Hina fjóra stjórnarmenn skal kjósa til tveggja ára, tvo sitt hvort árið.
5.    Varastjórn skal kjósa til eins árs.
6.    Tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara skal kjósa árlega.

8. gr. Verkefni aðalfundar

1.    Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2.    Skýrsla formanns stjórnar.
3.    Endurskoðaðir reikningar lagðir fram og skýrðir.
4.    Umræður um skýrslur og reikninga.
5.    Reikningar bornir upp til samþykktar.
6.    Lagabreytingar, enda hafi þeirra verið getið í fundarboði.
7.    Kjör formanns til eins árs.
8.    Kjör tveggja meðstjórnenda til tveggja ára.
9.    Kjör þriggja manna í varastjórn til eins árs.
10.    Kjör tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara til eins árs.
11.    Kjör nefnda og nefndarformanna til eins árs.
12.    Önnur mál.

9. gr. Verkefni stjórnar

1.    Stjórnin hefur á hendi allar framkvæmdir félagsins á milli aðalfunda.
2.    Öll meiriháttar fjárhagsmál skal stjórnin bera undir félagsfund, einkum ef um er að ræða mikilsverða samninga.
3.    Stjórnin getur skipað nefndir sér til aðstoðar til að vinna að ákveðnum málum.

10. gr. Stjórnarfundir

1.    Formaður kveður stjórn saman til fundar.
2.    Stjórnin skiptir með sér verkum.
3.    Skylt er að halda stjórnarfundi ef tveir eða fleiri stjórnarmenn óska þess, enda geri þeir grein fyrir fundarefni.
4.    Stjórnarmaður, sem ekki getur sótt fund, boðar varamann í sinn stað. Verði þessu ekki við komið kveður formaður til varamann.
5.    Ályktun stjórnar er lögmæt ef þrír stjórnarmanna hið fæsta samþykkja hana.

11. gr. Aðalfundur

1.    Aðalfundur skal haldinn fyrir febrúarlok ár hvert.
2.    Stjórnin skal boða til fundarins með minnst viku fyrirvara með opinberri auglýsingu eða með bréfi til hvers félagsmanns.
3.    Á aðalfundi gefur stjórn félagsins skýrslu um starfsemi félagsins á liðnu starfsári og leggur fram endurskoðaða reikninga fyrir liðið ár.
4.    Ársreikningar skulu liggja frammi til athugunar fyrir félagsmenn á skrifstofu félagsins viku fyrir aðalfund.
5.    Aðalfundur er löglegur hafi verið löglega til hans boðað.

12. gr.    Félagsfundir

1.    Fundir skulu haldnir þegar þörf krefur að dómi stjórnar, eða þegar minnst 20% félagsmanna óska þess, enda geri þeir grein fyrir fundarefni.
2.    Félagsfundi skal boða með minnst þriggja daga fyrirvara með auglýsingu eða með bréfi til félagsmanna.

13. gr. Lagabreytingar

1.    Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með 2/3 atkvæða viðstaddra fundarmanna.
2.    Tillögur til lagabreytinga skulu afhentar stjórninni mánuði fyrir aðalfund.
3.    Senda skal tillögur til lagabreytinga með fundarboði.
4.    Ekki verða greidd atkvæði um aðrar breytingatillögur en þær, sem sendar eru með fundarboði, og breytingar við þær.

14. gr. Slit félagsins

1.    Komi fram tillaga frá stjórn eða minnst 20% félagsmanna um að félagið verði lagt niður skal málið tekið fyrir á tveimur aðalfundum.
2.    Tillaga um félagsslit skal send með fundarboði.
3.    Slit ná fram að ganga verði þau samþykkt með 2/3 hlutum atkvæða viðstaddra fundarmanna á tveimur aðalfundum.
4.    Síðasti aðalfundur ráðstafar eigum félagsins.


Lögin samþykkt á stofnfundi 6/12´51 og breytt 18/3´52, 4/4´52, 21/12´53, 22/11´59, 12/12´65, 25/2´68, 7/3´76, 5/2´94, 4/2´95, 1/2´97, 16/2´06, 9/2´13, 11/2'23

bottom of page